Innlent

Björgunarsveitir halda á hálendið

Hópurinn sem fer frá Björgunarsveitinni Ársæli á Fjallabak
Hópurinn sem fer frá Björgunarsveitinni Ársæli á Fjallabak MYND/Landsbjörg

Fjórar Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar halda upp á hálendið í dag og verða í fimm hópum til 12. ágúst. Tilgangurinn er að fækka slysum, veita ferðamönnum aðstoð og upplýsingar og vera með viðbragðsstaðsetningar á hálendinu.

Undanfarin ár hefur margsinnis verið leitað að ferðamönnum og árlega verða slys og jafnvel dauðsföll á hálendinu. Þau má aðallega rekja til vanþekkingar og vanbúnaðar þeirra sem um hálendið fara.

Hálendinu verður gróflega skipt upp í fjögur svæði; Kjalvegur og nágrenni, Sprengisandsleið, Fjallabaksleiðir og svæðið norðan Vatnajökuls. Ein björgunarsveit verður staðsett á hverju svæði nema að Fjallabaki þar sem tveir hópar verða á ferðinni.

Þetta er í annað sinn sem verkefni af þessu tagi fer af stað og síðastliðið sumar var mikið um aðstoð við búnað ökumanna og leiðbeiningar til ferðamanna. Einnig voru allmörg stærri verkefni.

Neyðarlínan mun verða upplýst um stöðu og staðsetningu björgunarsveitanna. Þeir sem þurfa að ná á þær hringt í Neyðarlínuna í síma 112.

Björgunarsveitir víðs vegar af landinu munu taka þátt í verkefninu með því að leggja til mannskap og búnað í eina viku. Allt björgunarsveitarfólk eru sjálfboðaliðar.

Umferðarstofa, Sjóvá, N1, Toyota, Avis og Höldur styrkja verkefnið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×