Innlent

Minnihluti borgarstjórnar leggst gegn orkusölu til álvers í Helguvík

Helguvík
Helguvík MYND/365

Samningur um sölu orku frá Orkuveitu Reykjavíkur til álvers í Helguvík var samþykktur í borgarráði í dag gegn atkvæðum minnihluta borgarstjórnar. Samfylkingin lét bóka að samningurinn þýði að nær allir virkjunarkostir sem Orkuveitan hefur skoðað verði bundnir í orkusölu til stóriðju. Vinstri græn sakna aðkomu ríkisstjórnarinnar að stóriðjumálum og segja að það virðist nær sama hvaða Framsóknarflokkur er með Sjálfstæðisflokknum við völd. Samningurinn felur í sér sölu á eitthundrað megavöttum til Helguvíkur og forkaupsrétt að sjötíu og fimm megavöttum að auki.

Samfylkingin lét meðal annars bóka að þetta væri óráðlegt þar sem ekki lægi fyrir hvort Orkuveitan yrði bundin af samningi um sölu á 200 megavöttum til stækkunar álversins í Straumsvík. Nær allir þeir virkjunarkostir sem Orkuveitan hefur verið að skoða séu nú bundir í samningum vegna stóriðju. Lítið verði eftir fyrir annað svo sem netþjónabúi nema horfið verði frá áformum um aukna sölu inn á almennan markað. Síðast en ekki síst vanti umhverfismat, mat á verndargildi og lögformleg leyfi fyrir virkjunum sem séu fyrirhugaðar.

Svandís Svavarsdóttir vinstri grænum segir að undiralda þeirrar stóriðjuvæðingar sem menn hafi fundið fyrir sé að skella á að fullum þunga. Almenningur hafi kosið hana burt í vor en á það sé ekki hlustað. Ekki verði séð að álbræðsla í Helguvík, með tilheyrandi mengun, náttúruspjöllum og efnahagsáhrifum sé brýnasta verkefni forríkrar þjóðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×