Innlent

Brýnir heilbrigðisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra tekur gagnrýni sem birtist í minningargrein föður í gær mjög alvarlega. Hann segir athugasemdirnar brýna yfirvöld enn frekar í að taka á þessum málum.

Eins og við sögðum frá í fréttum okkar í gær birtist óvenjuleg minningargrein á leiðaraopnu Morgunblaðsins. Minningin var skrifuð af föður ungrar stúlku sem var borin til grafar í gær eftir að hafa fengið ofurskammt eiturlyfja, að sögn föður hennar, þar sem hún lá inni á Landspítala vegna sýkingar. Mikil viðbrögð urðu við fréttinni á Vísi.is og ljóst að mörgum er heitt í hamsi vegna eiturlyfjavandans. Fréttastofa leitaði í dag eftir viðbrögðum frá dómsmálaráðherra en ekki hefur náðst í hann. Faðirinn gagnrýnir meðal annars að í meðferð ægi saman ungum og öldnum og að þar hafi dóttir hans lært að sprauta sig. Meðferðarheimili á borð við Vog heyra undir Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra. Hann er staddur í útlöndum en sagði í samtali við fréttastofu að athugasemdir föðurins brýni menn enn frekar í að taka á þessum málum. Aðspurður hvort til standi að aðgreina óhörðnuð ungmenni frá reyndari eiturlyfjaneytendum í meðferð sagði Guðlaugur Þór að málið væri þess eðlis að rétt væri að fara yfir það allt til að kanna hvað megi betur fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×