Innlent

Breyta þarf ökunáminu

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Þrjú ungmenni liggja stórslösuð á gjörgæslu Landspítalans eftir glæfralegan kappakstur tveggja bíla á Geirsgötu í nótt. Formaður Ökukennarafélags Íslands segir hæpna aðferðafræði í íslensku ökunámi og því þurfi að breyta.

Það var um tvöleytið í nótt sem 18 ára piltur ók bíl sínum í kapp við annan vestur Geirsgötu. Tveir farþegar voru í bílnum, piltur og stúlka. Bílstjórinn missir síðan stjórn á bílnum í beygjunni við Hamborgarabúllu Tómasar, flýgur yfir gangstéttina, lendir þar á kyrrstæðum bíl og kastast því næst á Búlluna sjálfa.

Höggið var svo mikið að lögreglumenn við eftirlitsstörf við höfnina heyrðu þegar bíllinn skall á húsinu. Bílstjórinn og farþegarnir báðir liggja nú hættulega slösuð á gjörgæsludeild.

Að sögn lögreglunnar leikur grunur á ofsaakstri, sem er tvöfaldur leyfilegur hámarkshraði. Það þýðir að bíllinn gæti hafa verið á yfir 100 kílómetra hraða í beygjunni.

Hjúkrunarfræðingar blésu í herlúðra í gær og afþökkuðu frekari viðskiptavini vegna hraðaksturs. Ekki leið sólarhringur þar til þessi þrjú stórslösuðu ungmenni komu á spítalann. Guðbrandur Bogason formaður Ökukennarafélags Íslands segir að breyta þurfi ökunámi á Íslandi og eyða meira púðri í djúpa innrætingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×