Viðskipti erlent

Gengi hlutabréfa féll í Kína

Gengið út úr kauphöllinni í Sjanghæ í Kína.
Gengið út úr kauphöllinni í Sjanghæ í Kína. Mynd/AFP
Gengi kínversku SCI-vísitölunnar féll um 3,4 prósent í kauphöllinni Sjanghæ í Kína í dag eftir að tvö stór ríkisfyrirtæki þar í landi tilkynntu að þau ætli að selja hlutabréf í næstu viku. Fjárfestar óttast að gjörningurinn lækki verðmæti hlutabréfa.

Gengi SCI-vísitölunnar lækkaði um 137,7 punkta og stendur nú í 4.099,377 stigum.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir hlutabréfum í Kína og hafa jafnt háskólastúdentar sem eldri borgarar kosið að verja sparifé sínu fremur í kaup á hlutabréfum en til annars. Gengi hlutabréfa í Kína hefur staðið í methæðum undanfarna mánuði vegna þessa en gengi þeirra hefur tvöfaldast frá áramótum.

Varað hefur verið við bólumyndun á kínverska hlutabréfamarkaðnum, sem geti sprungið með alvarlegum afleiðingum fyrir fjármálamarkaði víða um heim. Stjórnvöld hafa því leitað leiða til að kæla markaðinn og meðal annars hækkað stimpilgjöld.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir greinendum að lækkunin nú muni vara til skamms tíma og muni það hafa góð áhrif á hlutabréfamarkaðinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×