Viðskipti erlent

Sony krafið um afsökunarbeiðni

Enska kirkjan hefur krafið Sony um afsökunarbeiðni fyrir að nota dómkirkjuna í Manchester í skotleiknum „Resistance: Fall of man."

„Að alheimsframleiðandi skuli nota nákvæma endurgerð af einni af okkar miklu dómkirkjum og hvetja til byssubardaga innandyra er mjög óábyrgt," segir Nigel McCulloch biskupinn í Manchester.

Samkvæmt BBC hittust leiðtogar kirkjunnar á mánudaginn til að gera uppkast að bréfi og ráða ráðum sínum varðandi málið.

Biskup segir að í bréfinu verði Sony krafið um afsökunarbeiðni. Einnig að leikurinn verði afturkallaður eða að þeim hlutum leiksins þar sem innviði dómkirkjunnar koma fyrir verði breytt.

Farið verður fram á að kirkjan fá umtalsverða fjárstyrki af ágóða leiksins og að aðrir sem berjist gegn byssunotkun í Manchester fái sinn skerf.

Talsmenn Sony segja að þeim sé kunnugt um áhyggjur kirkjunnar og þeir taki þær alvarlega. Þeir gera ráð fyrir að öll leyfi varðandi leikinn séu í lagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×