Sport

Hafsteinn kom fyrstur í mark í Bláalónsþrautinni

Hjólreiðamenn fengu sannkallað draumaveður í dag þegar hin árlega Bláalónsþraut á fjallahjólum fór fram í 11. sinn. Hjóluð var 60 km leið frá Hafnarfirði um Djúpavatnsleið, til Grindavíkur og þaðan í mark í Bláa Lóninu. Smelltu á spila til að sjá skemmtilegt myndbrot sem tekið var í keppninni.

Keppt var í mörgum flokkum en það var Hafsteinn Ægir Geirsson úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur sem kom fyrstur allra keppenda í mark á tímanum 1 klst, 46 mínútum og 55 sekúndum. Annar varð Árni Már Jónsson úr Hjólreiðafélagi Reykjavíkur en hann kom í mark tæpum fjórum mínútum á eftir Hafsteini.

Bryndís Þorsteinsdóttir varð hlutskörpust í kvennaflokki á tímanum 2 klst, 35 mín og 30 sek - en þess má geta að hún keppti í flokki 15-16 ára. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í Bláalónsþrautinni en í dag, en um 160 manns voru skráðir til keppni. Um 120 keppenda hjóluðu 60 km leiðina, en hinir hjóluðu öllu styttri leið sem var um 45 km. Eftir keppnina þáðu keppendur veitingar og afslöppun í Bláa Lóninu og sagði talsmaður Vísis að keppnin hefði heppnast með miklum sóma í ár - enda veðrið frábært.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×