Viðskipti erlent

Kínastjórn kældi markaðinn

Utan við kauphöllina í Sjanghæ í Kína.
Utan við kauphöllina í Sjanghæ í Kína. Mynd/AFP

Gengi hlutabréfa lækkaði nokkuð í kauphöllinni í Sjanghæ í Kína í dag eftir að kínversk stjórnvöld ákváðu að þrefalda gjöld á viðskipti með hlutabréf. Aðgerðin er liður í því að koma í veg fyrir ofhitnun á hlutabréfamarkaði í Kína.

Gjöldin hækkuðu úr 0,1 prósenti í 0,3 prósent.

Gengi CSI-300 vísitölunnar í kauphöllinni lækkaði um 264 punkta í 4.071 stig. Gengi hlutabréfa í Kína hefur skotist upp á við síðustu mánuði. Gengið hefur þrefaldast frá áramótum í fyrra, þar af tvöfaldast það sem af er árs. Þá fór vísitalan yfir 4.000 stiga múrinn í fyrsta sinn á mánudag.

Breska ríkisútvarpið (BBC) telur lækkunina tímabundna.

Hafa margir varað við bólumyndun á hlutabréfamarkaði í Kína, þar á meðal Alan Greenspan, fyrrum aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×