Viðskipti erlent

Eldsneytisbirgðir jukust í Bandaríkjunum

Olíuvinnslustöð í Bandaríkjunum.
Olíuvinnslustöð í Bandaríkjunum.

Eldsneytisbirgðir í Bandaríkjunum jukust um 1,5 milljónir tunna á milli vikna, að því er fram kemur í vikulegri skýrslu bandaríska orkumálaráðuneytisins sem birt var í dag. Þetta er talsvert yfir væntingum markaðsaðila.

Birgðirnar nema nú 196,7 milljónum tunna, sem er engu að síður nokkuð undir meðaltalinu á þessum tíma árs. Markaðsaðilar höfðu gert ráð vægri hækkun, eða um 800.000 tunnur.

Hráolíubirgðir jukust á sama tíma um tvær milljónir tunna á milli vikna og nema heildarbirgðirnar nú 344,2 milljónum tunna. Markaðsaðilar höfðu ekki komið sér saman um hver raunin yrði en nokkrir töldu líkur á samdrætti á meðan aðrir töldu líkur á aukningu, að sögn bandarísku fréttaveitunnar Dow Jones.

Heimsmarkaðsverð lækkaði á markaði í Bandaríkjunum í kjölfar birtingar skýrslunnar en hækkaði um 15 sent nokkru síðar og stendur nú í 65,65 dölum á tunnu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×