Viðskipti erlent

Spá lægri farsímakostnaði

Gert er ráð fyrir því að kostnaður vegna farsímanotkunar á milli landa innan aðildarríkja Evrópusambandsins komi til með að lækka um allt að 75 prósent þegar samþykkt verður að setja þak á reikigjöld farsímafyrirtækja. Evrópusambandið styður aðgerðir til að lækka reikigjöldin en mun hins vegar einungis vera formsatriði.

Umræður um reikigjöldin hafa lengið legið inni á borði Evrópusambandsins og hefur staðið til að setja þak á þá gjöldin sem farsímafélög geta krafist vegna símhringinga úr farsímum landa á milli. Að sögn breska ríkisútvarpsins mun lækkun farsímagjalda gleðja 150 milljónir farsímanotenda í Evrópu. Þetta á þó einungis við um símhringingar en ekki sendingu smáskilaboða.

Í tillögum Evrópusambandsins liggur fyrir að símhringingar landa á milli úr farsíma kosti 49 evrusent á mínútu að hámarki en móttaka símatala muni nema 24 evrusentum á mínútu.

Ekki er gert ráð fyrir að ný verðskrá vegna reikigjalda taki gildi fyrr en síðar á þessu ári, að sögn BBC.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×