Viðskipti erlent

Microsoft stefnir á aukna markaðshlutdeild

Bill Gates, stjórnarformaður og annar tveggja stofnenda Microsoft.
Bill Gates, stjórnarformaður og annar tveggja stofnenda Microsoft. Mynd/AP

Bandaríski tölvurisinn Microsoft greindi frá því dag að hann ætli að kaupa bandaríska markaðsfyrirtækið Aquantive. Kaupverð nemur sex milljörðum bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 380 milljarða íslenskra króna. Þetta eru umsvifamestu fyrirtækjakaup Microsoft til þessa sem verða að öllu leyti greidd út í beinhörðum peningum.

Með kaupunum stefnir Microsoft á að ná ráðandi markaðshlutdeild á netmarkaðnum en þar eru netfyrirtækin Google og Yahoo einráð.

Tilboðið hljóðar upp á 66,50 dali á hlut en það er heilum 85 prósentum yfir lokagengi Aquantive á markaði í gær. Fréttirnar höfðu mikil áhrif á gengi fyrirtækisins sem rauk upp um 77,5 prósent á Nasdaq-markaðnum vestanhafs í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×