Viðskipti erlent

Spá lægri verðbólgu í Bretlandi

Gert er ráð fyrir því að verðbólga mælist 2,8 prósent í Bretlandi í þessum mánuði. Hagstofa landsins birtir útreikninga sína um vísitölu neysluverðs í vikunni.

Verðbólgan mældist 3,1 prósent í síðasta mánuði. Niðurstaðan kom bankastjórn Englandsbanka, sem hafði ákveðið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 5,25 prósentum, mjög á óvart og varð Mervyn King, seðlabankastjóri, að gera stjórnvöldum grein fyrir því hvers vegna verðbólga hækkaði umfram spár.

Englandsbanki brást við hörðum þrýstingi í vikunni og hækkaði stýrivexti um 25 punkta og fóru stýrivextir við það í 5,55 prósent. Gert er ráð fyrir nokkrum hækkunum til viðbótar til að draga úr einkaneyslu og þrýsta verðbólgu niður.

Breska blaðið Times hefur eftir greinendum í dag að gangi spáin eftir og verðbólga mælist undir þremur prósentum verði erfitt að sjá fyrir um stöðu mála og ómögulegt að rýna í næstu skref seðlabankans.

Breska viðskiptaráðið birtir spá sína um stöðu efnahagsmála á yfirstandandi ársfjórðungi í Bretlandi á morgun. Times segir að viðskiptaráðið geri ráð fyrir 2,8 prósenta meðalverðbólgu á þessu ári en 2,1 prósents verðbólgu á því næsta. Mælir ráðið ekki með hækkun stýrivaxta en telur engu að síður ráð fyrir því að þeir verði hækkaði í 5,75 prósent á fjórðungnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×