Innlent

Jónas áfram formaður

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Ekki er útilokað að Jónas Garðarsson setjist aftur í formannsstól Sjómannafélags Reykjavíkur þegar hann hefur afplánað sína refsingu. Jónas var í gær dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir manndráp af gáleysi.

Fyrir ellefu mánuðum sagði Jónas Garðarsson, þáverandi formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, sig frá öllum trúnaðarstörfum sem hann hafði gegnt fyrir Sjómannafélagið og Sjómannasamband Íslands. Þetta gerði hann í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur fann hann sekan um manndráp af gáleysi þegar skemmtibátur hans Harpan steytti á Skarfaskeri á Faxaflóa haustið 2005 með þeim afleiðingum að karl og kona létust. Hann fékk þriggja ára fangelsisdóm í héraði sem var svo staðfestur í Hæstarétti í gær.

Framkvæmdastjóri Sjómannafélags Reykjavíkur, Birgir Björgvinsson sagði í samtali við fréttastofu í dag að Jónas hefði sagt sig tímabundið frá trúnaðarstörfum og óljóst hvað yrði þegar hann hefði tekið út sína refsingu. Jónas væri mjög vel liðinn af félagsmönnum. Helgi Kristinsson, settur formaður Sjómannafélagsins, tók í sama streng í samtali við fréttastofu í dag. Hann sagði Jónas missi fyrir félagið enda fjölhæfur maður sem hefði staðið sig vel í störfum fyrir sjómenn. Helgi sagði ekki útilokað að Jónas kæmi aftur til starfa - menn eins og hann væru ekki gripnir af götunni.

Þess má geta að formaður er kosinn á aðalfundi Sjómannafélagsins. Venjan er að menn skili inn framboðum milli jóla og nýárs - sem síðan er kosið um ári síðar. Tvenn áramót eru liðin síðan slysið varð á Faxaflóa og enginn hefur boðið sig fram gegn Jónasi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×