Viðskipti erlent

Enn minnkar viðskiptahallinn í Bandaríkjunum

Viðskiptahalli Bandaríkjanna jókst í marsmánuði þvert á spár og nam 63,9 milljörðum dala í mánuðinum, jafnvirði 4.094 milljörðum íslenskra króna. Þetta er 10,6 prósenta hækkun á milli mánaða. Mestu munar um verðhækkanir á hráolíu og eldsneyti. Þá benda bráðabirgðatölur bandaríska viðskiptaráðuneytisins til þess að viðskiptahallinn muni aukast frekar í apríl.

Þetta er næstmesti viðskiptahalli í Bandaríkjunum á einum mánuði, samkvæmt því sem bandaríska viðskiptaráðuneytið greindi frá í dag.

Á sama tíma dróst vöruinnflutningur saman frá Kína um 6,4 prósent en vöruskipti Bandaríkjanna við Kína voru neikvæð um 17,2 milljarða dali, 1.102 milljarða íslenskra króna, og hefur hann ekki verið minni í tæpt ár.

Breska ríkisútvarpið segir að lágt gengi bandaríkjadals komi útflytjendum vestanhafs til góða og hafi það leitt til þess að útflutningur til Kanada og aðildarríkja Evrópusambandsins hefur aldrei verið meiri.

Þrátt fyrir þetta hefur viðskiptahallinn í Bandaríkjunum dregist nokkuð saman það sem af er árs en á fyrstu þremur mánuðum ársins nam hann 180,7 milljörðum dala, jafnvirði 11.579 milljörðum íslenskra króna. Það er 5,7 prósentum minni halli en á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×