Innlent

Fimmtán mánaða fangelsi fyrir fjölmörg brot

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag síbrotamann í 15 mánaða fangelsi fyrir fjölda brota. Þá var hann jafnframt dæmdur til að greiða um 300 þúsund krónur í skaðabætur til nokkurra aðila vegna brota sinna.

Alls voru ákæruliðirnir í málinu 25 og lutu flestir þeirra að þjófnaði á ýmsum munum, allt frá landalærum til tölvu. Þá var hann einnig ákærður fyrir að reyna að brjótast inn í höfuðstöðvar Kaupþings í Borgartúni með því að brjóta rúðu á 4. hæð hússins en hann hvarf af vettvangi þegar hann varð var við öryggisvörð bankans.

Áttu brotin sér stað frá nóvember í fyrra til febrúar í ár og hefur maðurinn setið í gæsluvarðhaldi síðan þá. Hann játaði öll brotin á sig og bar við fíkniefnavanda. Sagðist hann fyrir dómi eiga tveggja ára dóttur og að hann væri staðráðinn í því að leita sér hjálpar við vandanum.

Dómurinn tók tillit til þess og þess að maðurinn hafði 18 sinnum hlotið dóm og dæmdi hann til 15 mánaða fangelsisvistar sem fyrr segir. Til frádráttar kemur gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt frá 21. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×