Viðskipti erlent

Reuters í yfirtökuviðræðum

Breska fréttastofan Reuters hefur staðfest að það eigi í samrunaviðræðum við kanadíska upplýsingatæknifyrirtækið Thomson. Thomson er sagt íhuga að leggja fram yfirtökutilboð í Reuters sem hljóðar upp á 8,8 milljarða punda, jafnvirði 1.117 milljarða íslenskra króna.

Breska ríkisútvarpið segir að Thomson, sem meðal annars rekur fréttaveituna AFX, hafi verið að útvíkka starfsemi sína upp á síðkastið og falli fréttastofa Reuters vel inn í reksturinn.

Orðrómur um hugsanlega yfirtöku á Reuters kom upp á föstudag og skaust gengi fyrirtækisins upp um 25 prósent í kauphöllinni í Lundúnum í Bretlandi. Fréttin varð til þess að hækka gengið enn frekar í dag en þá fór það upp um 6,7 prósent.

Að sögn Reuters hljóðar tilboðið upp á 352,5 pens á hlut auk þess sem hluthöfum verður greitt með bréfum í Thomson. Að sögn BBC metur Reuters hins vegar gengi eigin bréfa hærra, eða á bilinu 697 til 705 pens á hlut sem er 40 prósentum yfir núverandi markaðsvirði fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×