Innlent

Ræða atvinnuástandið í Bolungarvík

Guðmundur Halldórsson, Bolvíkingur og fyrrum skipstjóri og útgerðarmaður, boðar til borgarafundar í Bolungarvík á sunnudag vegna atvinnuástandsins í bænum. Hann segir ráðamenn verða að koma með lausnir en hátt í 70 manns hafa misst vinnuna á síðustu misserum.

Nýverið var 48 manns sagt upp þegar rækju- og fiskvinnslan Bakkavík hætti vinnslu. Áður hafði fiskkökuvinnslunni á staðnum verið hætt en þar störfuðu sex til átta manns og öllum starfsmönnum nema tveimur á radarstöðinni á Bolafjalli sagt upp, alls 10 manns. Undanfarin misseri hafa því hátt í 70 manns misst vinnuna í Bolungarvík. Guðmundur Halldórsson sem áður var skipstjóri og útgerðarmaður í Bolungarvík segir ástandið sem myndast hefur í byggðarlögum landsins mjög alvarlegt og til komið vegna fiskveiðistjórnunar ríkisstjórnarinnar en með henni hafi aflaheimildir færst á hendur fárra manna.

Hann ákallar stjórnarherra og boðar til borgarafundar í ráðhusinu í Bolungarvík á sunnudag klukkan fimm. Hann hefur boðið öllum stjórnmálaflokkum að koma og ræða málin og vonar að hægt verði að finna laust á vanda Bolvíkinga. Enn sem komið er hefur sjávarútvegsráðherra einn stjórnmálamanna boðað komu sína á fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×