Innlent

Jónína: Kastljós baðst ekki afsökunar

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra vinnur nú að kæru til Siðanefndar Blaðamannafélagsins vegna umfjöllunar Kastljóss um ríkisborgararétt unnustu sonar síns. Hún segir eina af ástæðum kærunnar vera þá að Kastljósfólk hafi ekki séð sóma sinn í því að biðjast afsökunar.

Allar staðhæfingar þeirra hafi verið hraktar, meðal annars í svörum Bjarna Benediktssonar og með upplýsingum allsherjarnefndar.

Kæran hafði ekki borist Blaðamannafélaginu fyrir stundu. Jónína segist vera að vinna að henni, þetta séu annasamir tímar.

Fram hefur komið að Jónína telur að upplýsingarnar sem birtar voru í Kastljósi hafi fengist með ólögmætum hætti. Þannig hafi verið brotið gegn friðhelgi einkalífs stúlkunnar.

Jónína skrifaði grein um málið sem birt var í Morgunblaðinu. Þar spyr hún hvort Kastljós láti misnota sig til að koma höggi á hana og Framsóknarflokkinn í aðdraganda kosninganna.

Þórhallur Gunnarsson ritstjóri Kastljóss neitaði þeirri ásökun í yfirlýsingu og segist standa við umfjöllunina.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×