Innlent

Kostaði ríkissjóð rúmlega 105 milljónir

Jónas Haraldsson skrifar
Ríkissjóður borgar 105 milljónir í kostnað vegna meðferðar endurákæru í Baugsmálinu.
Ríkissjóður borgar 105 milljónir í kostnað vegna meðferðar endurákæru í Baugsmálinu. MYND/Vísir

Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna meðferðar endurákæru í Baugsmálinu fyrir dómi eru rúmlega 105 milljónir króna. Þetta kom fram í dómsskjölum en í þeim ákvörðuðu dómarar laun verjenda. Kostnaður við vörn Jóns Ásgeirs var 41 milljón og af því borgar ríkissjóður 36,9 milljónir.

Samkvæmt dómsorði borgar ríkið hluta af kostnaði sem hlýst af vörn sakborninga. Ríkið borgar 90 prósent af varnarkostnaði Jóns Ásgeirs, 80 prósent af varnarkostnaði Tryggva og allan kostnað við vörn Jóns Geralds.

Dómarar ákvörðuðu laun verjanda Jón Ásgeirs 15 milljónir og þrjú hundruð þúsund krónur. Af því greiðir ríkið rúmlega 13,8 milljónir.

Laun verjanda Tryggva voru ákveðin 11,9 milljónir og borgar ríkissjóður rúmlega 9,5 milljónir af því.

Laun verjanda Jóns Geralds voru ákveðin 7,9 milljónir og borgar ríkissjóður alla þá upphæð.

Þar að auki krafðist Jón Ásgeir greiðslu fyrir vinnu aðstoðarmanna verjanda, húsnæði og skrifföng. Sá kostnaður var metinn á tæplega 25,7 milljónir króna og borgar ríkissjóður rúmlega 23,1 milljón af þeirri upphæð.

Samkvæmt því er upphæðin sem ríkissjóður borgar fyrir sakborningana þrjá 54,3 milljónir króna.

Kostnaður við málsókn samkvæmt yfirliti setts saksóknara, Sigurðar Tómasar Magnússonar, var tæplega 56 milljónir. Voru ákærðu, Jón Ásgeir og Tryggvi, dæmdir til að greiða fimm milljónir óskipt af þeirri upphæð í ríkissjóð. Kostnaður ríkissjóðs við málsóknina var því tæplega 51 milljón krónur.

Ef allt er síðan lagt saman er ljóst að kostnaður ríkissjóðs vegna meðferðar endurákæru í Baugsmálinu var rúmlega 105 milljónir króna. Við ákvörðun málsvarnarlauna var tekið mið af vinnuskýrslum verjenda og við­mið­unarreglum dómstólaráðs. Virðisaukaskattur er innifalinn í máls­varn­ar­laununum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×