Innlent

Hlutur ríkisins mun renna til Suðurnesja

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Hitaveita Suðurnesja, Bláa lónið.
Hitaveita Suðurnesja, Bláa lónið.

Suðurnesin munu með einhverjum hætti njóta sölu ríkisins á hlut þess í Hitaveitu Suðurnesja. Þetta sagði Árni Mathiesen fjármálaráðherra í samtali við Vísi í dag. Grétar Mar Jónsson frambjóðandi frjálslyndra í Suðurkjördæmi hefur lagt til að fjármagnið verði látið renna til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Árni segir hefð fyrir því að þegar eignir tilheyri ákveðnum svæðum fái þau að njóta þess. Hann segir að það verði raunin, en hversu mikið eða á hvaða hátt eigi eftir að skoða og útfæra.

Geysir Green Energy bauð rúmlega sjö og hálfan milljarð króna í eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja. Tilboðin voru opnuð á Hótel Sögu á mánudag. Tilboð Geysis var næstum tvöfalt hærra en næsthæsta tilboð.

Árni Magnússon forstöðumaður fjárfestinga hjá Glitni sagði þá að um væri að ræða verðmætasta hlut einkaaðila í orkufyrirtæki hér á landi. Geysir Green energy er meðal annars í eigu Glitnis sem hefur tekið þátt í fjármögnun verkefna á sviði orkumála.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×