Viðskipti erlent

Hillary Clinton á MySpace

Bandaríski forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton er búin að uppgötva netsamfélagið MySpace og notar það ötullega í kosningabaráttunni.
Bandaríski forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton er búin að uppgötva netsamfélagið MySpace og notar það ötullega í kosningabaráttunni.

Hillary Clinton er komin á MySpace. Þetta vinsæla netsamfélag stefnir á sýndarkosningar snemma á næsta ári og vonast til að niðurstöður gefi til kynna hver verði næsti forseti Bandaríkjanna. Aðeins meðlimir búsettir í Bandaríkjunum fá að taka þátt í sýndarkosningunum sem fara fram á netinu snemma á næsta ári.

Forsvarsmenn netsamfélagsins vonast til að niðurstöðurnar gefi til kynna hver taki næst við embætti forseta Bandaríkjanna.

Raunverulegar kosningar fara fram í nóvember 2008 og baráttan um embættið er hafin fyrir löngu. Frambjóðendur hafa verið duglegir við að nota netheima sér til framdráttar og reyna þannig að höfða til yngri kjósenda.

Að sögn forsvarsmanna MySpace spegla netsamfélög í mörgum tilfellum þróun í hinu raunverulega samfélagi og þess vegna binda þeir miklar vonir við niðurstöður kosninganna.

Frambjóðandi demókrata, öldungadeildarþingkonan Hillary Clinton, á í dag 35.438 vini á MySpace-síðunni sinni. Keppinautur Hillary, Barack Obama, nýtur þó ívið meiri vinsælda og hafa 155.473 skráð hann sem vin. Það verður því áhugavert að fylgjast með gangi mála.

Netsamfélagið hefur stofnað eigin síðu fyrir kosningaverkefnið og ber hún heitið MySpace Impact. Þar er að finna allt efni um kosningaverkefnið ásamt upplýsingum frá frambjóðendum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×