Viðskipti erlent

Hagnaður Philips fimmfaldaðist

Flatsjónvarp frá Philips.
Flatsjónvarp frá Philips.

Hollenski raftækjaframleiðandinn Philips skilaði hagnaði upp á 875 milljónir evra, jafnvirði tæpra 78 milljarða íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þetta er fimmfalt meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra og skrifast að mestu á sölu dótturfyrirtækis Philips á Taívan.

Á sama tíma í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 160 milljónum evra, jafnvirði 14,2 milljarða íslenskra króna. Philips seldi dótturfyrirtæki sitt í Taívan sem framleiðir örflögur á tímabilinu og skilaði salan 697 milljónum evra, 61,9 milljörðum króna til fyrirtækisins.

Velta dróst saman um 2,6 prósent á tímabilinu og nam sex milljörðum evra, 533 milljörðum króna. Samdráttur var talsverður í sölu á hefðbundnum túbusjónvörpum, tölvuskjám og flatsjónvörpum á tímabilinu.

Sala á öðrum heimilistækjum, svo sem rafmagnsrakvélum, jókst hins vegar á sama tíma, sérstaklega í Bandaríkjunum og í Kína.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×