Innlent

Sakfelldir fyrir að kaupa 110 þúsund smyglsígarettur

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt tvo karlmenn í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 300 þúsund krónur í sekt fyrir að hafa keypt saman 550 karton af sígarettum sem þeir máttu vita að var smyglvarningur. Það eru samtals 110 þúsund sígarettur.

Sígaretturnar keyptu mennirnir af skipverjum á rússneskum togara sem lá við Raufarhafnarhöfn í lok október í fyrra. Lögregla komst á snoðir um málið og lagði hald á sígaretturnar og sömuleiðis 9.900 dollara sem var hluti þess fjár sem mennirnir greiddu fyrir sígaretturnar.

Báðir játuðu mennirnir brotið. Þeir höfðu áður verið sektaðir fyrir tollalagabrot og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Hún var sem fyrr segir 45 daga fangelsi sem skilorðsbundið er til tveggja ára auk 300 þúsund króna sektar. Þá voru sígaretturnar og fjármunirnir einnig gerðir upptækir með dómnum.

Í öðru máli sem Héraðsdómur Norðurlands eystra dæmdi í var karlmaður einnig sakfelldur fyrir tollalagabrot en hann tók við 500 kartonum af sígarettum úr sama togara sama kvöld. Flutti hann varninginn á brott í bíl en lögregla stöðvaði för hans á Tjörnesi. Hann játaði brot sitt og hlaut sömu refsingu og hinir mennirnir tveir auk þess sem sígaretturnar voru gerðar upptækar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×