Viðskipti erlent

Fyrrum forstjóri EADS fékk milljónir

Noel Forgeard.
Noel Forgeard. Mynd/AFP

Noel Forgeard, fyrrum yfirforstjóri evrópsku samstæðunnar EADS, móðurfélags flugvélaframleiðandans Airbus, fékk rúmar 8,5 milljónir evra, jafnvirði 767,8 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur og starfslokatengdar launagreiðslur eftir að hann sagði starfi sínu lausu.

Forgeard tók poka sinn í júlí í fyrra í kjölfar tafa á framleiðslu A380 risaþotunnar frá Airbus og brigsla um innherjaviðskipti með hlutabréf.

Skaðabætur Forgeards námu 6,1 milljón evra, jafnvirði 551 milljón íslenskra króna en afgangurinn er launatengdur starfslokasamningur sem kveður á um laun í tvö ár eftir að hann hætti störfum hjá fyrirtækinu gegn því að hann hefji ekki störf hjá samkeppnisaðila fyrirtækisins.

Forgeard hefur ætíð neitað sök vegna innherjasvika með sölu á bréf sín í EADS en hann er sagður hafa losað sig við hlut sinn áður en greint var frá því opinberlega að tafir yrðu á framleiðslu A380 risaþotunnar frá Airbus. Þegar greint var frá töfunum í júní féll gengi bréfa í félaginu um fjórðung á skömmum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×