Viðskipti erlent

ABN Amro fær græna ljósið

Eitt útibúa bankans ABN Amro, eins stærsta banka Hollands.
Eitt útibúa bankans ABN Amro, eins stærsta banka Hollands. Mynd/AFP

Fjármála- og samkeppnisyfirvöld í Hollandi hafa gefið græna ljósið fyrir kaupum erlendra aðila á ABN Amro, einum stærsta banka Hollands. Þá segja þau að því verði ekki mótmælt verði starfsemi bankans brotin upp og hún seld í sjálfstæðum einingum. Stjórnendur ABN Amro hafa átt í samrunaviðræðum við breska bankann Barclays síðastliðnar þrjár vikur og eru líkur á að einhverjar eignir verði losaðar úr samstæðunni.

Fari svo að bankarnir renni saman í eina sæng eru nokkrir bankar sagðir bíða á hliðarlínunni eftir því hvort einhverjar eignir verði seldir frá ABN Amro. Stjórnendur Barclays eru sjálfir sagðir horfa til þess að ná yfir starfsemi ABN Amro í Asíu. En aðrir bankar eru sagðir hafa hug á að gera yfirtökutilboð í bankann, þar á meðal Royal Bank of Scotland sem sagður er íhuga að gera tilboð í hann fylgi starfsemi hollenska bankans í Brasilíu ekki með í kaupunum.

Verði af samruna bankanna verður til einn stærsti viðskiptabanki Evrópu með markaðsverðmæti upp á 80 milljarða punda, jafnvirði 10.428 milljarða íslenskra króna og 47 milljón viðskiptavini um allan heim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×