Erlent

Kona lést í skotárás við höfuðstöðvar CNN

Kona lést þegar hún var skotin til bana við höfuðstöðvar CNN sjónvarpsstöðvarinnar í Atlanta í Bandaríkjunum nú undir kvöld. Konan var starfsmaður Omni Hótelsins sem er hluti af húsaþyrpingu stöðvarinnar. Haft er eftir vitnum á fréttavef CNN að konan hafi verið barnshafandi.

Byssumaðurinn er alvarlega slasaður eftir að öryggisvörður CNN skaut hann í höfuðið.

Lögreglan segir að málið sé tengt heimiliserjum.

Vitni sagðist hafa séð mann draga konu á hárinu á næstu hæð fyrir ofan skotárásina. Maðurinn hafi skipað honum að víkja úr vegi þeirra. Vitnið sótti þá öryggisvörð og sá hinn grunaða fara með konuna niður. Innan við mínútu seinna heyrði hann byssuskot.

Atvikið átti sér stað einungis 10 metrum frá fréttastofu CNN. Nokkrir starfsmenn fréttavefsins CNN.com urðu vitni að skotárásinni.

Brad Lendon, einn starfsmannanna CNN sagði að maðurinn hefði staðið yfir konunni og skotið hana að minnsta kosti tvisvar. Eftir skotin hafi byssumaðurinn litið í kringum sig og í átt til Brads; “Ég veit ekki hvort hann sá mig, en á þessu augnabliki varð mér ljós alvara málsins. Ég sneri í burtu og reyndi að finna öruggan stað.”

Kjarni CNN bygginganna er umkringdur verslunum og veitingastöðum. Fréttastofan var rýmd tímabundið vegna atburðarins. En nokkrir starfsmenn höfðu flúið þegar þeir heyrðu byssuskotin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×