Innlent

Missti ökuskírteinið á fyrsta degi

Sautján ára piltur var tekinn fyrir hraðakstur í Ártúnsbrekku í gærkvöldi á 136 km hraða. Skírteinið var gefið út í gær en pilturinn er nýorðinn 17 ára. Hann má búast við að fá 75 þúsund króna sekt og missa ökuleyfið í einn mánuð. Hinn nýbakaði bílstjóri fær því að hugsa ráð sitt í um mánaðartíma áður en hann snýr aftur út í umferðina.

Tæplega fimmtíu ökumenn voru teknir fyrir hraðakstur á höfuðborgarsvæðinu síðasta sólarhringinn. Þar af var 18 ára piltur sem mældist á 127 km hraða. Í síðasta mánuði var sami piltur tekinn fyrir hraðakstur á Kringlumýrarbraut. Hann fékk bílpróf síðastliðið sumar og var sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði síðastliðið haust. Hann virðist því lítið hafa lært af þeirri reynslu.

Grófasta hraðakstursbrotið í gær var framið á Vesturlandsvegi þar sem tvítugur karlmaður keyrði á 148 km hraða. Hann hefur sömuleiðis áður komið við sögu lögreglu vegna hraðaksturs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×