Fótbolti

Zidane vildi ekki spila með Evrópuúrvalinu

Frá atvikinu fræga í úrslitaleik HM í sumar.
Frá atvikinu fræga í úrslitaleik HM í sumar. MYND/Getty

Zinedine Zidane afþakkaði að spila með Evrópuúrvali Marcelo Lippi í góðgerðarleik sem fram fer á Old Trafford annað kvöld. Áður hafði Marco Materazzi, varnarmaður Inter Milan og sá er Zidane skallaði eftirminnilega í úrslitaleik Frakka og Ítala á HM í sumar, staðfest komu sína í leikinn en þó er það ekki talin ástæða þess að Zidane afþakkaði boðið.

"UEFA sendi honum beiðni um að spila, ekki ég. En það barst neikvætt svar á síðustu stundu," sagði Lippi þegar hann var spurður um málið í dag. Materazzi verður hins vegar í liði Evrópuúrvalssins, sem einnig mun innihalda leikmenn á borð við Steven Gerrard, Jamie Carragher og Ronaldinho.

Sem kunnugt er lagði Zidane skóna á hilluna eftir að hafa verið rekinn útaf í úrslitaleik HM fyrir að skalla Materazzi. Zidane hefur áður lýst því yfir að hann og ítalski varnarmaðurinn séu búnir að grafa stríðsöxina og því er ekki talið að Zidane hafi afþakkað boðið vegna viðveru hans. Líklega hafi hann einfaldlega haft öðrum og mikilvægari erindum að sinna.

Leikurinn annað kvöld verður sýndur í beinni útsendingu á Sýn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×