Fótbolti

Dida fer ekki til Barcelona

Brasilíski markvörðurinn Dida hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við lið sitt AC Milan á Ítalíu og bundið þannig enda á vangaveltur um framtíð sína. Dida hafði sterklega verið orðaður við Barcelona, til að leysa hinn mistæka Victor Valdés af á næstu leiktíð.

Samningur Dida við Milan átti að renna út í sumar, en sjálfur hafði hann lýst opinberlega yfir efasemdum um framtíð sína hjá félaginu. Dida vildi nýja áskorun, auk þess sem honum leist ekki nægilega vel á framtíðarsýn Milan. Ljóst er að forráðamenn ítalska félagsins hafa náð að telja honum trú um hið gagnstæða.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að samherjar Dida séu mjög ánægðir með ákvörðun hans og fékk hann að sögn dynjandi lófaklapp frá þeim er tilkynnt var um nýja samninginn á æfingu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×