Innlent

Umhyggja fékk milljón fyrir mark Eiðs

Allt að fjórar fjölskyldur langveikra barna njóta góðs af markinu sem Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrir Barcelona í leiknum gegn Liverpool í Meistaradeild Evrópu í gær. Forsvarsmenn Umhyggju sátu spenntir yfir leiknum.

Og ekki að ástæðulausu því þegar boltinn lenti í markinu var milljón króna framlag Eimskips til styrktarsjóðs Umhyggju í höfn. Ragna K. Marinósdóttir, framkvæmdastjóri Umhyggju, sat gríðarlega spennt yfir leiknum í gær. "Ég beið eftir því allan tímann að hann Eiður fengi að komast inn á og mínar vonir rættust svo sannarlega þar. Ég stökk upp og út um allt. Þetta var bara ótrúlegt."

Umhyggja er foreldra- og fagfélag fólks sem vinnur að bættum hag fjölskyldna langveikra barna. Og milljónin kemur til vegna samnings milli Eimskips og Eiðs Smára frá því í lok janúar . Samkvæmt honum átti Umhyggja að fá milljón fyrir hvert mark sem Eiður skoraði á leiktíðinni í meistaradeild Evrópu. En nú er Barcelona fallið úr keppni og því ekki von á fleiri milljónum til Umhyggju fyrir fótafimi kappans. En hvernig nýtist milljónin? "Hún mun örugglega fara beint í styrktarsjóð Umhyggju sem er sjóður til að styrkja fjölskyldur sem lenda í miklum fjárhagsörðugleikum vegna veikinda barna sinna. Hún nýtist því börnunum eins og skot."

Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, gæti hins vegar átt von á vænum summum því samkvæmt samningnum fær félagið hálfa milljón frá Eimskip fyrir hvert mark sem Eiður Smári skorar í spænsku deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×