Innlent

Geðhjálp segir fólki úthýst af Landspítalanum

Vilyrði ráðamanna um að koma því fólki sem dvaldi í Byrginu og í Breiðuvík til hjálpar virðast innistæðulaus. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar fullyrðir að fólkinu sé úthýst af Landspítalanum.

Fólk sem segist hafa sætt harðræði, ofbeldi eða kynferðislegri misnotkun í Byrginu og á drengjaheimilinu í Breiðuvík hefur undanfarið leitað til Geðhjálpar. Framkvæmdastjóri félagsins segir aðstöðu þeirra slæma, oft og tíðum sé um heimilislaust fólk að ræða sem m.a. komi til að fá mat.

Í bréfi frá stjórn Geðhjálpar til ríkisstjórnarinnar er minnt á sérstök fyrirheit forsætisráðherra og félagsmálaráðherra sem gefin voru á fundi með blaðamönnum í síðasta mánuði um að komið yrði á fót sérstöku teymi fagaðila á geðsviði Landspítalans, sem fólkið gæti leitað til. Þar hafi verið tekin kolröng stefna.

Stjórn Geðhjálp telur að samhæfa hefði þurft mun betur aðgerðir af hálfu heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis frá byrjun.

Félagsmálaráðuneytið segir málið heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Heilbrigðisráðuneyti vísar á Bjarna Össurarson, sem fer fyrir teymi fagaðila á Landspítalanum. Bjarni vill ekki veita fréttastofu viðtal.

Engar kvartanir hafa borist vegna teymisins til landlæknisembættisins, hvorki frá Geðhjálp né öðrum, að sögn Matthíasar Halldórssonar landlæknis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×