Innlent

Vel fylgst með tunglmyrkva

Tunglmyrkva varð vart víða um heim í gærkvöldi og nótt. Tunglið varð þá almyrkvað í fyrsta sinn í tæp þrjú ár.

Stjörnufræðingar og -skoðarar fylgdust áhugasamir með þegar tunglið dökknaði, roðnaði og varð síðan gráleitt og appelsínugult. Þetta var í fyrsta sinn síðan í lok október 2004 sem tunglmyrkvi sást frá Reykjavík. Myrkvinn nú sást nokkuð vel í höfuðborginni þrátt fyrir að það hafi verið skýjað. Hann sást vel annars staðar á landinu.

Almyrkvinn hófst um stundarfjórðungi fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi og lauk rétt um miðnætti. Tuglmyrkvi verður þegar tunglið gengur inn í skugga jarðar á sama tíma og jörðin er á milli sólar og tungls. Því getur tunglmyrkvi aðeins orðið þegar tunglið er fullt. Þetta gerist þó ekki í hverjum mánuði því brautarplön tungls og jarðar eru ekki samsíða. Tunglbrautin hallar um fimm gráður frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt yfir eða undir tunglið.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að tunglmyrkvar séu ekki sjaldgæf fyrirbrigði þó sum ár verði enginn. Þeir geti þó orðið tveir á ári en sjaldgæfast sé að þeir verði þrír. Það gerðist síðast árið 1982 og sáust tveir þeirra frá Reykjavík. Næst gerist það árið 2485.

Myrkvinn í gær sást vel frá Afríku, Evrópu, Suður-Ameríu og austanverðum Bandaríkjunum og Kanada og eins og sjá má á þessum myndum Egils Aðalsteinssonar, myndatökumanns, þá var hann falleg sjón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×