Innlent

Ýmsir tregðast við að lækka matarverð

Söluturnar, veitingastaðir, kvikmyndahús og mötuneyti eru þau fyrirtæki sem síst virðast ætla að lækka verð ef marka má þær kvartanir sem borist hafa Neytendasamtökunum í gær og dag. Síminn hefur verið rauðglóandi hjá samtökunum sem hyggjast innan tíðar birta nöfn þeirra fyrirtækja sem ekkert lækka hjá sér verð.

Það var í gær sem virðisaukaskattur á mat, veitingasölu, gistingu, fjölmiðlum og fleiru átti að lækka niður í 7%, úr ýmist fjórtán prósentum eða 24,5 prósentum. Vörugjöld lækka líka en það tekur lengri tíma að skila sér út í verðlagið.

Ekki hafa öll fyrirtæki enn lækkað sín verð. Að sögn Jóhannesar Gunnarssonar, formanns Neytendasamtakanna, hefur síminn hjá samtökunum verið rauðglóandi í gær og dag og flestir hafa kvartað undan því að verð hafi ekki lækkað hjá söluturnum, veitingastöðum, kvikmyndahúsum og mötuneytum. Hann segir jafnframt að samtökin munu birta nöfn þeirra fyrirtækja sem ekki skila neytendum þeim lækkunum sem þeim ber.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×