Tónlist

Hljómsveitin Roof Tops snýr aftur

Hljómsveitin Roof Tops kom fyrst fram í veitingahúsinu Glaumbæ í mars 1968 og vakti fljótlega athygli fyrir taktfasta og hressilega danstónlist.
Hljómsveitin Roof Tops kom fyrst fram í veitingahúsinu Glaumbæ í mars 1968 og vakti fljótlega athygli fyrir taktfasta og hressilega danstónlist.

Það hefur verið rífandi stemning á æfingum hjá hljómsveitinni Roof Tops að undanförnu, en þeir félagar hafa æft af kappi fyrir dansleiki á Kringlukránni nú um helgina, á föstudags- og laugardagskvöld, 2. og 3. mars.

Hljómsveitin Roof Tops kom fyrst fram í veitingahúsinu Glaumbæ í mars 1968 og vakti fljótlega athygli fyrir taktfasta og hressilega danstónlist. Vorið 1969 kom út fyrsta hljómplata hljómsveitarinnar, fjögurra laga plata þar sem meðal annars var að finna lagið Söknuð, sem náði miklum vinsældum. Í kjölfarið fylgdu svo fleiri hljómplötur, þar á meðal breiðplatan Transparency. Ákveðið var að gefa allar hljóðritanir með hljómsveitinni út á þremur geisladiskum síðastliðið haust og í tilefni af þeirri útgáfu kom hljómsveitin saman á tónleikum og dansleik á Hótel Sögu í nóvember síðastliðnum og heppnaðist sú endurkoma afar vel og varð kveikjan að því að þeir Ari Jónsson, söngvari og trommuleikari, Sveinn Guðjónsson hljómborðsleikari og Gunnar Ringsted gítarleikari ákváðu að slá til þegar tækifæri bauðst til að koma fram á dansleikjum á Kringlukránni nú um helgina.

Þeim til halds og trausts verða Finnbogi Kjartansson bassaleikari, sem lék hér í eina tíð með hljómsveitinni Júdas frá Keflavík og Sigurður "Perez" Jónsson á saxafón og slagverk, en hann gerði m.a. garðinn frægan með Bogomil Font og Milljónamæringunum á sínum tíma. Að sögn þeirra félaga verða rifjaðir upp gamlir taktar, með vinsælum lögum frá sjöunda áratug síðustu aldar, og ekki síður með "soul" tónlist í anda Wilson Pickett og Otis Reading, en Roof Tops gerði sér far um að leika slíka tónlist á dansleikjum hér á árum áður við góðar undirtektir.

Roof Tops leika á Kringlukránni föstudags- og laugardagskvöld, 2. og 3. mars.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.