Sport

Carl Lewis óánægður með þróun mála

Carl Lewis er farinn að grána.
Carl Lewis er farinn að grána.

Fyrrum frjálsíþróttakappinn Carl Lewis segir að íþróttin eigi við mikinn vanda að stríða um þessar mundir og fer hann ekki fögrum orðum um þá íþróttamenn sem neyta ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn. Lewis segir þá örfáu útvöldu, sem kjósa að eyðileggja fyrir öllum hinum, eiga ekkert gott skilið.

Lewis, nífaldur Ólympíumeistari í spretthlaupum og langstökki frá því hann var upp á sitt besta, lét ummælin falla á opnunardegi meistaramóts Bandaríkjanna í frjálsum íþróttum innanhúss. Mikil umræða hefur átt sér stað ytra um þá aukningu sem hefur átt sér stað á meðal frjálsíþróttafólks sem neytir ólöglegra lyfja til að bæta árangur sinn. Lewis er ekki ánægður með stöðu mála.

“Frjálsar íþróttir eiga í vanda. Mikill meirihluti íþróttamanna eru að gera góða hluti og taka ekki inn ólögleg lyf. En þeir fáu sem nota lyf skemma fyrir öllum hinum og eru smám saman að sverta orðspor allra frjálsíþróttamanna. Það er ömurleg þróun,” segir hinn 45 ára gamli Lewis.

“Á endanum snýst þetta ekki eingöngu að komast fyrstur yfir endalínuna. Þetta snýst líka um hvað þú gerir fyrir íþróttina og samfélagið þitt. Hef ég látið gott af mér leiða? Þetta eru spurningar sem íþróttamenn ættu að hafa í huga.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×