Enski boltinn

Benitez væntir mikils af Mascherano

Javier Mascherano sést hér á æfingu með Liverpool í vikunni.
Javier Mascherano sést hér á æfingu með Liverpool í vikunni. MYND/Getty

Rafael Benitez, knattspyrnustjóri Liverpool, telur sig hafa gert kjarakaup í Javier Mascherano og segir argentínska miðjumanninn geta slegið rækilega í gegn í ensku úrvalsdeildinni. Mascherano verður enn ein viðbótin í flóru spænskumælandi leikmanna á Anfield og telur Benitez að það muni koma til með að hjálpa honum mikið.

Mark Gonzalez, Xabi Alonso, Luis Garcia, Alvaro Arbeloa, Jose Reina, Emiliano Insua and Gabriel Paletta tala allir spænsku reiprennandi, auk þess sem stærstur hluti þjálfaraliðsins hjá Liverpool kemur frá Spáni. Mascherano hafði lýst því yfir að tungumálaörðugleikar væru helsta orskökin fyrir vandamálum hans hjá West Ham og segir Benitez að fyrst það vandamál sé úr sögunni ætti leikmaðurinn að eiga auðveldara með að aðlagast aðstæðum.

"Hann er lykilmaður í einu besta landsliði heims. Hann þarf að spila, sem hann var ekki að gera hjá West Ham. Fyrsta hálfa árið í nýju landi er alltaf erfitt en nú, þegar hann hefur fengið að kynnast landi og þjóð, lært tungumálið auk þess sem hann hefur nú marga spænska liðsfélaga til að leita til, ættum við að sjá hans bestu hliðar," segir Benitez.

"Hann hefur ekki spilað lengi en hann er í góðu formi og hefur æft með okkur í nokkrar vikur. Allt sem hann þarf eru leikir," bætti hann við.

Mascherano sjálfur segist staðráðinn í að sýna sitt rétta andlit í ensku deildinni. "Benitez veitti mér mikið sjálfstraust um leið og ég hafði rætt við hann fyrst. Með för minni til Liverpool hefst nýr kafli á mínum ferli. Nú stefni ég á að verða aftur sá leikmaður sem ég var, festa mig í sessi hjá Liverpool og halda sæti mínu í argentínska landsliðinu," segir Mascherano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×