Innlent

Þriðjungur ungmenna stefnir ekki í menntastörf

Frá skemmtun Vinnuskólans síðastliðið sumar.
Frá skemmtun Vinnuskólans síðastliðið sumar. MYND/Stefán Karlsson

Rúmlega þriðjungur fimmtán ára unglinga á íslandi býst ekki við að stunda störf sem krefjast menntunar um þrítugt. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu frá UNICEF Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þessi niðurstaða er ekki í samræmi við könnun Námsmatsstofnunar sem sýnir að 76 prósent nemenda í 10. bekk stefna á háskólanám.

Í skýrslu UNICEF er fjallað um velferð barna og ungmenna í efnahagslega best settu löndum heims. Skýrslan byggir á OECD skýrslu frá árinu 2004. OECD metur hvort starfsval ungmennanna krefjist frekari menntunar.

Á vefriti menntamálaráðuneytisins segir að litlar væntingar ungmenna til starfa í framtíðinni valdi áhyggjum. Skýrslan er hins vegar ekki í samræmi við önnur gögn sem gefa mun bjartari mynd af væntingum íslenskra ungmenna til menntunar og framtíðarstarfa.

Kannanir Námsmatsstofnunar sýna að nær allir nemendur í 10. bekk stefni á störf sem krefjist umtalsverðrar menntunar. Þá kemur fram í skýrslunni Ungt fólk 2006 að mikil aukning er í ásókn ungmenna í menntun á æðri stigum.

Árið 2005 töldu 67 prósent pilta og 77 prósent stúlkna mjög eða frekar líklegt að þau fari í háskólanám. Niðurstöður alþjóðlegu samanburðarkönnunarinnar PISA styðja þessar tölur, en þar kemur fram að hátt í 80 prósent nemenda stefni á störf sem krefjist fag- eða háskólamenntunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×