Innlent

Vilja hækkun lífeyrisbóta

Félag eldri borgara í Reykjavík vill að lífeyrisbætur aldraðra verði hækkaðar úr 125 þúsund krónum á mánuði í 210 þúsund krónur og fylgi síðan launavísitölu. Félagið leggur mikla áherslu á fjölgun sambýla, leigu- og hjúkrunaríbúða og að málefni aldraðra verði alfarið flutt til sveitarfélaganna.

Þetta kom fram á fundi Stjórnar félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni í gær þegar kynnt voru baráttumál félagsins. Eitt af þeim er að bæta lífeyristekjur eldri borgara verulega.

Helgi Seljan varaformaður félagsins segir aðalmálið í þeim efnum að bæta kjör þeirra sem verst hafa það, enda séu aldraðir mjög blandaður hópur. Nú eru heildarbætur frá Tryggingastofnun 125 þúsund krónur á mánuði. Helgi segir brýnt fyrir eldri borgara að skattleysismörkin verði leiðrétt. Í dag séu þau 90 þúsund en þau ætti að vera í kring um 140 þúsund ef þau hefðu fylgt launavísitölu.

Félag eldri borgara setur það á oddinn að málefni þeirra verði alfarið flutt frá ríki yfir til sveitarfélaganna. Og þá þurfi að endurskoða lögin um málefni aldraðra sem séu algerlega úrelt. Fjölga þurfi búsetuúrræðum aldraðra.

Félagið hefur sent bæði ríki og borg áskoranir þar sem farið er yfir þau mál sem eldri borgarar telja nauðsynlegt að bregðast við strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×