Innlent

Dagskráin í Baugsmálinu farin úr böndunum

Dómari í Baugsmálinu stöðvaði í dag spurningar setts ríkissaksóknara. Hann sagði dagskrána hafa farið úr öllum böndum og að settur ríkissaksóknari gæti sjálfum sér um kennt. Verjandi Jóns Ásgeirs las í dag upp úr tölvupósti þar sem kvennamál Jóns Ásgeirs komu við sögu.

Dómari stöðvaði yfirheyrslur Sigurðar Tómasar Magnússonar, setts ríkissaksóknara, á fimmta tímanum þegar ljóst var að ekki tækist að ljúka þeim í dag en þeim átti að ljúka á hádegi í gær. Sigurður Tómas var ósáttur við þess ákvörðun þar sem hann hafði ekki lokið spurningum sínum. Dómarinn sagði hann geta sjálfum sér um kennt. Honum hafi verið látið eftir að búa til dagskrána en hún hafi farið úr böndunum. Ámælisvert væri að dagskráin brygðist svo mikið og ljóst væri að með þessu áframhaldi myndi málið dragast verulega.

Fjallað var í dag um átjánda lið ákærunnar. Þar er Jóni Ásgeiri og Trygga gefið að sök að hafa dregið að sér fé til að fjármagna kostnað við skemmtibát.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, sagði í dag kvennamál Jóns Geralds og Jón Ásgeirs hafa mikla þýðingu fyrir upphaf málsins og las hann meðal annar upp úr tölvupóstum þeirra á milli þess efnis. Í einum póstanna sakar Jón Gerald Jón Ásgeir um að nota fólk og virða ekkert í kringum sig og vitnar þar meðal annars til kvennamála hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×