Fótbolti

Ronaldinho tryggði Barcelona sigur

Ronaldinho var frábær í kvöld.
Ronaldinho var frábær í kvöld. MYND/Getty

Barcelona er komið með þriggja stiga forystu í spænsku úrvalsdeildinni eftir að hafa lagt Racing Santander vandræðalaust af velli, 2-0, á Nou Camp í kvöld. Brasilíski snillingurinn Ronaldinho kom aftur inn í lið Evrópumeistaranna og skoraði bæði mörk liðsins.

Sem kunnugt er var Eiður Smári Guðjohnsen ekki í leikmannahópi Barcelona en Javier Saviola hóf leikinn í fremstu víglínu. Lionel Messi kom inn á í síðari hálfleik og spilaði sinn fyrsta leik í rúma þrjá mánuði.

Barcelona er með 46 stig á toppnum en Sevilla, sem gerði markalaust jafntefli við Real Betis í gærkvöldi, er í öðru sæti með 43 stig. Fyrr í dag hafði Getafe unnið stóran en nokkuð óvæntan sigur á Valencia, 3-0, en Valencia er í fjórða sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Real Madrid sem er með 41 stig í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×