Enski boltinn

Frábær endasprettur færði Arsenal sigur

Það gekk lítið upp hjá Thierry Henry fyrir framan mark Wigan í dag.
Það gekk lítið upp hjá Thierry Henry fyrir framan mark Wigan í dag. MYND/Getty

Frábær endasprettur Arsenal tryggði liðinu 2-1 sigur á Wigan í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lengi vel leit út fyrir að gestirnir færu með öll þrjú stigin af hólmi eftir að Denny Landzaat hafði komið þeim yfir í fyrri hálfleik, en sjálfsmark og mark frá Thomas Rosicky á síðustu 10 mínútum leiksins tryggðu heimamönnum mikilvægan sigur.

Mark Landzaat var einstaklega glæsilegt, þrumuskot af 25 metra færi sem Jens Lehmann í marki Arsenal átti enga möguleika að verja.

Leikmenn Arsenal pressuðu stíft að marki gestanna í síðari hálfleik en svo virtist sem að þeir myndu ekki finna leið framhjá varnarmúr Wigan. Um miðjan síðari hálfleik brá Arsene Wenger upp á það ráð að hafa fjóra framherja inn á í einu og skömmu síðar brast stíflan. Fitz Hall gerði sjálfsmark og fjórum mínútum síðar, eða á 85. mínútu, gerði Rosicky sigurmarkið.

Arsenal komst aftur upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum og er nú 49 stig, einu stigi minna en Liverpool sem þó hefur spilað einum leik meira en Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×