Enski boltinn

Venables: McLaren er fullur sjálfstrausts

Steve McLaren hefur ekki náð að stilla strengi enska landsliðsins.
Steve McLaren hefur ekki náð að stilla strengi enska landsliðsins. MYND/Getty

Terry Venables, aðstoðarþjálfari enska landsliðsins í fótbolta, segir að sjálfstraust Steve McLaren hafi ekki beðið hnekki þrátt fyrir gríðarlega gagnrýni fjölmiðla og almennings í Englandi eftir tap enska liðsins gegn Spánverjum í síðustu viku. Venables segir hins vegar engan taka gagnrýnina eins nærri sér og Venables.

"Þrátt fyrir allt sem hefur verið sagt og skrifað, þá hafa Steve og ég sjálfur óbilandi trú á liðinu. Við erum sannfærðir um að við vinnum næstu tvo leiki í undankeppni EM," sagði Venables við enska fjölmiðla í morgun. Næstu leikir enska liðsins eru gegn Ísrael og Andorra, og er talað um skyldusigur Englendinga í þeim báðum.

"Við gerum okkur fyllilega grein fyrir afleiðingunum ef við töpum fyrir Ísrael en við vitum að þegar við getum stillt upp okkar sterkasta liði eigum við að vinna báða þessa leiki. Leikurinn gegn Spáni var ekki sá fyrst sem England tapar í vináttuleik og það er heldur ekki í fyrsta sinn sem enskt landslið hefur verið baulað af leikvelli," segir Venables.

"En ég get sagt ykkur að enginn er vonsviknari með stöðu mála en Steve. Ég sá sársaukann í andliti hans. Það eitt segir ykkur hversu miklar tilfinningar hann ber til liðsins. Hann vill vinna og sættir sig ekki við neitt annað," bætti Venables við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×