Enski boltinn

Gerrard heillaður af nýjum eigendum Liverpool

Steven Gerrard þráir ekkert heitar en að vinna ensku deildina með Liverpool.
Steven Gerrard þráir ekkert heitar en að vinna ensku deildina með Liverpool.

Fyrirliði Liverpool, Steven Gerrard, er himinlifandi með kaup bandarísku auðkýfinginanna George Gillett og Tom Hicks á félaginu og kveðst heillaður af framtíðaráætlunum þeirra. Fyrirliðinn hitti nýju eigendurna á fundi fyrir helgi þar sem þeir lýstu fyrir honum hugsjón sinni og framtíðarsýn.

"Eftir aðeins 15 mínútur var ég orðinn gjörsamlega heillaður af sýn þeirra," sagði Gerrard, sem sótti fundinn ásamt Jamie Carragher. "Þeirra markmið er mjög einfalt - þeir ætla að gera Liverpool að stærsta félagi í heiminum. Þeir sögðu okkur frá nýja leikvanginum og áætlunum þeirra til að gera liðið betra. Það sem hreif mig mest var hins vegar sannfæring þeirra um að liðið myndi njóta velgengni á komandi árum."

Gerrard er sannfærður um að stutt sé í að Liverpool geti farið að keppa við Chelsea og Manchester United að alvöru um enska meistaratitilinn. "Ég trúi því statt og stöðugt að Liverpool sé besta liðið í þessu landi. Með smá hjálp frá nýju eigendunum mun fólk utan Liverpool fara að átta sig á því einnig," sagði Gerrard og glotti en hann þráir ekkert heitar en að vinna deildina með sínu uppeldisfélagi.

"Ef ég hef ekki unnið deildina þegar ferli mínum lýkur þá mun ég líta á hann sem misheppnaðan," sagði Gerrard hreinskilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×