Fótbolti

Beckham sló rækilega í gegn

Gleðin leyndi sér ekki í andliti David Beckham þegar hann skoraði gegn Sociedad í kvöld, eins og sjá má á þessari mynd.
Gleðin leyndi sér ekki í andliti David Beckham þegar hann skoraði gegn Sociedad í kvöld, eins og sjá má á þessari mynd. MYND/Getty

David Beckham kom, sá og sigraði í leik Real Madrid og Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Beckham var öllum að óvörum í byrjunarliði Real eftir að hafa ekki verið í leikmannahóp liðsins síðustu vikur og skoraði fyrra mark Real í 2-1 sigri liðsins.

Real Madrid er áfram í þriðja sæti deildarinnar þrátt fyrir sigurinn og hefur nú hlotið 41 stig eftir 22 leiki. Sevilla hefur 42 stig og Barcelona 43 stig en bæði hafa þau leikið einum leik minna en Real Madrid.

Síðasti leikur Beckham fyrir Real Madrid var gegn Deportivo La Coruna þann 7. janúar en leikur Beckham í kvöld bar ekki þess merki að hann væri búinn að hvíla mikið að undanförnu. Beckham virkaði frískur og var greinlega staðráðinn í að sanna tilverurétt sinn í liði Real. Hann spilaði allar 90 mínútur leiksins.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt hafði Fabio Capello, þjálfari Real Madrid, lýst því yfir að Beckham myndi ekki spila fleiri leiki fyrir félagið eftir að hann skrifaði undir samning við LA Galaxy í Bandaríkjunum. Capello lét undan miklum þrýstingi í vikunni og ákvað velja Beckham í hópinn fyrir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×