Enski boltinn

Alex Ferguson: Gefið McLaren vinnufrið

Alex Ferguson og Steve McLaren mynduðu gott teymi hjá Man. Utd. á sínum tíma.
Alex Ferguson og Steve McLaren mynduðu gott teymi hjá Man. Utd. á sínum tíma. MYND/Getty
Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Man. Utd, hefur hefur beðið fjölmiðla í Englandi að gefa landsliðsþjálfaranum Steve McLaren frið til að sinna starfi sínu. McLaren, sem hefur verið harðlega gagnrýndur eftir tap Englendinga gegn Spánverjum á miðvikudag, er fyrrum aðstoðarmaður Ferguson hjá Man. Utd.

"Ég er sannfærður um að hann er rétti maðurinn í starfið og þið ættuð að styðja miklu betur við hann," sagði Ferguson við enska fjölmiðla í morgun. Sá skoski hefur mikla trú á hæfileikum McLaren sem þjálfari en þeir unnu saman í rúm tvö ár hjá Man. Utd. áður en McLaren tók við Middlesbrough á sínum tíma.

"Eftir 10 ár gætuð þið séð eftir því að hafa bolað McLaren úr starfi sínu því ég er sannfærður um að hann mun eiga gæfuríkan þjálfaraferil. Ég þekki hans vinnubrögð og persónuleika og ég veit að hann er staðráðinn í að ná fram því besta úr enska liðinu. Honum líkar ábyggilega ekki sú staða sem hann er í núna, gagnrýni gerir engum gott. Það sem hann þarf er sigur með liðinu" segir Ferguson.

"Eitt helsta vandamálið við enska landsliðsþjálfarastarfið eru vinnubrögð fjölmiðla. Leikmenn liðsins óttast þess að spila vegna þess að þeir vita hvernig viðbrögð fjölmiðla verða ef þeir spila ekki vel," sagði Ferguson jafnframt.

Næsti leikur enska liðsins fer fram þann 24. mars, gegn Ísrael í undankeppni EM.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×