Innlent

Neytendur reiðir vegna hækkana

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna .
Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna . MYND/Valgarður Gíslason

Verslunin í landinu verður undir smásjá um mánaðarmótin þegar aðgerðir stjórnvalda til lækkunar á matvöruverði taka gildi. Þetta segir Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna. Hann segir viðbrögð neytenda vegna hækkana birgja á mat- og hreinlætisvörum undanfarið ekki hafa látið á sér standa. Almenningur er reiður og finnist að með hækkununum sé verið að gera lítið úr aðgerðum stjórnvalda þegar matvara lækkar um mánaðarmótin.

Neytendasamtökin birta reglulega yfirlit yfir hækkanir birgja og telja hækkanirnar mjög almennar. Þær eigi við um gjaldskrár sveitarfélaga, verð hjá heildsölum og framleiðendum og nú síðast tryggingafélögum.

Almennt er skýringin lækkun á gengi íslensku krónunnar. Samtökin benda á að krónan hefur styrkst gagnvart helstu gjaldmiðlum um rúmlega 5 prósent frá áramótum. Þau hvetja birgja til að lækka nú verð með tilliti til gengisþróunar og hafa þannig samræmi í aðgerðum sínum. Alltof of oft skili sterk staða krónunnar sér seint og illa til neytenda, samanber á árunum 2004 og 2005 miðað við rannsókn Neytendasamtakanna á þeim tíma.

Jóhannes segir greinilegt að fólk fylgist mjög vel með verðlagi og segir að ábendingum hafi fjölgað mjög. "Við fylgjum öllum slíkum málum eftir og látum seljendur gefa okkur skýringar." Hann leggur áherslu á að almenningur sé vakandi og láti samtökin vita.

"ASÍ, Neytendastofa, Neytendasamtökin og almenningur munu hafa verslun undir smásjá frá mánaðarmótum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×