Viðskipti erlent

Vefverslanir nýta sér vinsældir YouTube

Þeir sem markaðsetja vörur á netinu eru nú í síauknum mæli farnir að nýta sér fádæma vinsældir myndskeiða á netinu á síðum eins og YouTube. Netverslanirnar leggja nú metnað sinn í að gera fyndna „sketsa" og setja þá á netið sem og að bjóða viðskiptavinum sínum aðstoð við hið sama. Hvort uppátækið beri tilætlaðan árangur til lengri tíma litið skal ósagt látið en víst að það er tilraunarinnar virði.

Eigandi blómaverslunar á netinu segir í viðtali við New York Times að þó hann geti enn ekki sagt til um árangurinn sé þessi nýlunda til þess að hann hafi á ný persónuleg samskipti við viðskiptavini. Netverslun hans býður viðskiptavinum sínum að búa til sín eigin myndskeið, þar sem þeir taka upp kveðju með vefmyndavél og velja sér svo útlit fyrir kveðjuna á síðu blómaverslunarinnar.

Þá hefur eigandinn uppálagt starfsfólki sínu að kynna sér grunnatriði í myndklippi til að vefverslunin geti orðið við sérhæfðari beiðnum. Líklegt má telja að nóg verði að gera nú í aðdraganda Valentínusardagsins sem er 14. febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×