Handbolti

Danir eru mun sigurstranglegri en Íslendingar

Erik Veje Rasmussen ætti að vera íslenskum handboltaáhugamönnum að góðu kunnur.
Erik Veje Rasmussen ætti að vera íslenskum handboltaáhugamönnum að góðu kunnur. MYND/Getty

Erik Veje Rasmussen, þjálfari Aarhus í Danmörku og helsti HM-sérfræðingur blaðsins Berlinske Tidende í heimalandi sínu, telur að Danir séu mun sigurstranglegri en Íslendingar í viðureign liðanna í 8-liða úrslitum HM í Þýskalandi. Rasmussen telur að Danir séu einnig með sterkara lið en Rússar og Pólverjar, en það verða væntanlegir mótherjar í undanúrslitum.

"Þetta lítur mjög vel út og gæti í raun ekki hafa raðast betur upp. Við erum með betri mannskap en íslenska liðið og það sama á við þegar ég ber okkur saman við Rússland og Pólland. Leiðin í úrslitin er greið því við sleppum við liðin þrjú sem allir reikna með að vinni mótið; Spánn, Frakkland og Króatía," sagði Rasmussen við BT.

"Ég er eins bjartsýnn og hægt er að vera. Að sjálfsögðu hafa Íslendingar á góðu liði að skipa en leikur þeirra veltur á nokkrum lykilmönnum. Danska liðið er með 2-3 leikmenn í hverri stöðu sem geta leyst hvorn annan af. Það er breiddin sem gerir okkur sigurstranglegri á þriðjudag," sagði Rasmussen jafnframt, en það er þá sem leikur Dana og Íslendinga fer fram í Hamborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×