Fótbolti

Barcelona aftur á toppinn eftir sigur gegn Celta

Ronaldinho skoraði úr vítaspyrnu í kvöld.
Ronaldinho skoraði úr vítaspyrnu í kvöld. MYND/Getty

Barcelona er á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 sigur á Celta Vigo í kvöld þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en skammt var eftir af leiknum. Eiður Smári Guðjohnsen kom inn á í lið Barcelona þegar tæpar 10 mínútur voru eftir.

Javier Saviola kom heimamönnum yfir á 34. mínútu með sínu fimmta deildarmarki á tímabilinu en hann var tekinn fram yfir Eið Smára í byrjunarlið Barca þriðja leikinn í röð. Anderson Nene jafnaði metinn úr vítaspyrnu á 67. mínútu og stefni margt í að Barcelona tapaði enn einu sinni stigum á heimavelli.

Ronaldinho skoraði hins vegar úr vítaspyrnu á 78. mínútu og Ludovic Giuly gulltryggði sigurinn sjö mínútum síðar með marki úr skyndisókn.  Eiður Smári kom inn á fyrir Saviola á 83. mínútu en kom lítið við sögu þær mínútur sem hann spilaði

Barcelona er með 42 stig á toppi spænsku deildarinnar, einu stigi meira en Sevilla sem lagði Levante fyrr í dag í miklum markaleik þar sem lokatölur urðu 4-2. Freddie Kanoute, Alexandr Kerzhakov og Alfaro skoruðu mörk Sevilla auk þess sem eitt markanna var sjálfsmark frá Levante.

Real Madrid er í þriðja sæti með 38 stig en Valencia getur komist upp fyrir Real með því að leggja Real Betis af velli á útivelli síðar í kvöld. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×