Innlent

Baugsmálið kostað sakborninga yfir milljarð

Hreinn kostnaður sakborninga í Baugsmálinu er kominn á annan milljarð króna, að sögn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Hann segir engar horfur á sameiningu Skjás eins og 365 en viðræður um það hefðu þó áttu sér stað milli fyrirtækjanna.

Jón Ásgeir Jóhannesson sat fyrir svörum hjá Sölva Tryggvasyni í Íslandi í dag í gær í tilefni af sýknudómi í upphaflega Baugsmálinu sem kveðinn var upp á fimmtudag. Enginn vafi leikur á því, að mati Jóns Ásgeirs, að rót Baugsmálsins væri pólitísk herferð gegn fyrirtækinu. "Það átti að brjóta upp fyrirtækið og skemma okkar starf. En málin hafa heldur betur þróast í aðra átt. Gamla klíkan í Sjálfstæðisflokknum átti mikinn þátt í að koma þessu af stað með dyggri hjálp ritstjóra Morgunblaðsins sem hjálpaði við að koma gögnum milli manna og byggja upp mikla tortryggni gagnvart okkur."

Það hafi engu breytt þótt skipt hafi verið um menn í brúnni í þessu máli sem hefur tekið á fimmta ár. "Ég held að þessi rannsókn hafi verið mjög hlutdræg og menn hafi aldrei horft á þau gögn sem við höfum lagt fyrir. Það hefur aldrei verið farið yfir það sem endurskoðendur okkar, lögmenn, stjórn og eigendur félagsins hafa sagt í málinu."

Ríkissjóður þarf að reiða fram 58 milljónir í málsvarnarlaun og kostnað en málið hefur líka kostað sakborninga skildinginn, eða vel á annan milljarð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×